Upprunavottuð eða óvottuð orka

Um leið og við óskum viðskiptavinum okkar og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs viljum við upplýsa um þær breytingar sem urðu um áramótin hjá okkur.

Frá því við hófum starfsemi hafa allir viðskiptavinir fengið upprunavottaða orku frá Orku heimilanna. Sú breyting varð 2023 að Landsvirkjun hóf að selja upprunavottorð sérstaklega. Við ákváðum fyrir árið 2023 að taka það á okkur og kaupa upprunavottorð fyrir alla okkar viðskiptavini án þess að láta það ganga út í verðlagið. Nú hafa upprunavottorð hækkað og teljum við rétt að bjóða viðskiptavinum að velja hvort þeir vilji fá áfram upprunavottaða orku eða fá ódýrari óvottaða orku.

Allir viðskiptavinir munu fá upprunavottaða orku áfram nema þeir velji annað. Öll orka sem seld er á Íslandi er í grunnin upprunavottuð. Þess vegna teljum við rétt að viðskiptavinir láti vita ef þeir óska eftir að fá óupprunavottaða og um leið ódýrari orku. Viðskiptavinir sem óska eftir að breyta og fá óupprunavottaða orku geta sent tölvupóst á netfangið [email protected]

Orka heimilanna hefur boðið upp á sama verð frá upphafi, eða frá 2018. Þegar við hófum starfsemi fengu fyrirtæki allt að 30% afslátt og mun hagstæðari kjör en einstaklingar. Þess vegna ákváðum við strax að einbeita okkur að minnstu kaupendum raforku á Íslandi en það eru heimilin og lítil fyrirtæki. Í dag eru einstaklingar og lítil fyrirtæki að fá lægra verð en fyrirtæki. Við viljum eigna okkur þessa þróun því þegar við komum á markað var allt í einu til mikið pláss til þess að gefa einstaklingum sérkjör sem þeim stóð áður ekki til boða. Myndin sem fylgir fréttinni er frá því 2018 og okkar fyrsta auglýsing.

Eins og mikið hefur verið rætt í fjölmiðlum þá er orkuskortur á Íslandi. Þetta ástand hefur orðið til þess að okkar innkaupsverð á rafmagni hefur hækkað mikið. Þess vegna er viðbúið að hækkanir eigi eftir að verða tíðari en áður. Og um leið er það nauðsynlegt fyrir neytendur að vera vel á varðbergi í þessu ástandi. Eins og áður ætlum við að bjóða lágt og samkeppnishæft verð og teljum að það eigi eftir að verða neytendum til hagsbóta.

Við munum halda áfram að upplýsa um raforkumarkaðinn hér á síðunni hjá okkur og látum ykkur vita ef breytingar verða.

1. Janúar 2024

Orkuskortur á Íslandi?

Við hjá Orku heimilanna höfum reglulega birt fréttir þar sem við viljum reyna að útskýra fyrir viðskiptavinum og öðrum Íslendingum það sem er að gerast á Íslenskum orkumarkaði. Hér fyrir neðan ætlum við að fjalla um þann orkuskort sem blasir við og hefur verið mikið í fjölmiðlum undanfarið. Við ætlum að reyna að skýra málið eins og það lítur út fyrir okkur og á mannamáli.

Á vef Landsvirkjunar má sjá stöðu uppistöðulóna og er hún mjög lág miðað við árstíma. Landsvirkjun er lang stærsti framleiðandi á rafmagni á Íslandi þannig að staða uppistöðulóna Landsvirkjunar er lykilatriði þegar kemur að orkuöryggi hér á landi. Slæm staða uppistöðulóna hefur verið ljós síðan snemma í sumar en það er mikið eftir af vetri og ýmisleg getur gerst fram að vori. T.d. gæti byrjað að rigna þó það teljist ólíklegt en við erum sammála Landsvirkjun í því að fara varlega því orkuskortur er mjög alvarlegt mál og ber að taka föstum tökum.

Í október óskaði Landsvirkjun eftir því að sölufyrirtæki sendu inn pöntun á grunnorku fyrir árið 2024. Í stuttu máli þá fékk Landsvirkjun ósk um kaup á mun meira magni frá sölufyrirtækjum en þau áttu von á og mun meira en mögulegt er að útskýra með eðlilegum vexti á raforkumarkaði. Í kjölfarið sendi Landsvirkjun ósk á Orkustofnun um að þau færu yfir orkupantanir sölufyrirtækja í ljósi erfiðrar stöðu á raforkumarkaði. Orkustofnun hefur fengið ítarlegar upplýsingar frá öllum sölufyrirtækjum og er að fara yfir óskir þeirra um grunnorku. Það geta verið nokkrar ástæður fyrir því að óskir sölufyrirtækja séu meiri en við var búist. Orkustofnun er meðal annars að skoða hvort einhver sölufyrirtæki ætli sér að kaupa orku á almenna markaðinum og mögulega að selja hana á stóriðjumarkaði. En á þeim gögnum sem Orkustofnun hefur ætti hún auðveldlega að geta séð hver ástæðan er.

Varðandi markað með rafmagn til stóriðju og svo markað til almennrar notkunar þá er mjög mikill stærðarmunur þar á. Stóriðjan er að kaupa um 80% af rafmagni á Íslandi. Öll önnur fyrirtæki um 15% og svo heimilin ca. 5%. Raforkunotkun heimila og fyrirtækja er mjög stöðug og fyrirsjánleg og hefur vaxið að meðaltali um 1% á ári. Á meðan notkun stóriðju vex í stórum stökkum. Landsvirkjun og önnur framleiðslufyrirtæki framleiða og selja stórnotendum rafmagn beint en sölufyrirtæki rafmagns selja svo öllum öðrum rafmagn. Stóriðjur gera langtíma samninga um sína notkun, oft yfir 20 ára, en sölufyrirtæki sem kaupa rafmagn fyrir alla aðra hafa ekki getað gert samninga til langs tíma. Þess vegna er mikilvægt að aðskilnaður milli þessa tveggja markaða sé algjör og aðskilnaðurinn virtur þannig að ekki sé rafmagn að flytjast á milli markaða. Í dag er hættan sú að í orkuskorti sé stóriðja að reyna að fá rafmagn til sín í gegnum forgangsorkumarkaðinn.

Möguleikar sölufyrirtækja á að tryggja orku fyrir sína viðskiptavini fram í tímann hefur farið minnkandi síðastliðin ár. Fyrir nokkrum árum gátum við keypt rafmagn með 3ja ára samningum. Svo fór þetta niður í 2ja ára samninga 2022 og nú er aðeins hægt að kaupa grunnorku 1 ár í einu og svo aðrar orku afurðir með skemmri fyrirvara. Í dag er staðan hjá sölufyrirtækjum slæm því þau hafa ekki getað tryggt orku fyrir viðskiptavini sína vegna ársins 2024. Á föstudag var okkur tilkynnt um að sölufyrirtæki geti keypt rafmagn í mánaðarblokkum vegna janúar 2024 . Einnig getum við keypt skammtímaorku sem er mjög dýr afurð. En skammtímaorka kostar allt að 18 kr á kWst í dag á meðan við seljum kílóvattstundina á 7,30 kr. Þannig hefur þetta ástand hækkað innkaupsverð sölufyrirtækja mikið en við þurfum líklega að bíða fram í janúar til að fá að kaupa orku fyrir febrúar. Mikil hætta er á að þetta ástand geti leitt til mikillar hækkunar á rafmagni til heimila og lítilla fyrirtækja. Ef Landsvirkjun og Orkustofnun halda rétt á málum teljum við að það ætti að vera hægt að koma í veg fyrir það.

Að lokum viljum við róa lesendur því að þó svo að sölufyrirtæki hafi ekki tryggt sér rafmagn vegna 2024 þá kemur það ekki til með að bitna á viðskiptavinum og þeir munu halda áfram að fá rafmagn óháð mörkuðum rafmagns.

Við komum til með að fylgja þessu eftir og láta ykkur sem eruð áhugasöm um þessi mál vita þegar eitthvað skýrist í þessum málum.

10. Desember 2023

Orka heimilanna er eina sölufyrirtækið sem selur öllum viðskiptavinum sínum upprunavottað rafmagn

Frá síðustu áramótum hætti Landsvirkjun að láta upprunavottorð fylgja með seldu rafmagni. Við ákváðum að kaupa vottorð fyrir okkar viðskiptavini enda er það skoðun okkar að allt rafmagn á Íslandi sé í grunnin umhverfisvænt og við teljum að þannig vilji viðskiptavinir okkar fá það. Ef við vildum selja okkar viðskiptavinum rafmagn þar sem upprunavottorðin hafa verið seld frá myndum við að láta vita af því með sannanlegum hætti.

Á meðfylgjandi mynd sem er tekin af vef Orkustofnunar, Orkusetur.is, má sjá að Orka heimilanna er eina raforkusölufyrirtækið sem hefur ekki selt upprunavottorðin frá rafmagninu né keypt orku frá fyrirtækjum sem eru búin að selja upprunavottorðin.

Við teljum að verðsamanburður hafi verið misvísandi þar sem upprunavottorðin kosta töluvert. Þessi framsetning er til bóta en mætti vera skýrari. Einnig teljum við að ef sölufyrirtæki hefur selt upprunavottorðin eða keypt rafmagn án upprunavottorða þurfi að tilkynna raforkukaupanda með sannanlegum hætti að hann sé ekki að fá upprunavottað rafmagn. Annars er um tvísölu á upprunavottorðum að ræða.

Við viljum upplýsa okkar viðskiptavini um stöðuna og munum fjalla betur um þessi mál síðar.

2. September 2023

Upprunavottun Orku heimilanna

Í ljósi umræðu um upprunaábyrgðir og uppruna raforku sem neytendur kaupa á Íslandi viljum við koma því á framfæri að öll orka sem Orka heimilanna selur til viðskiptavina sinna er 100% umhverfisvottuð og ekki búið að selja uppruna hennar úr landi.

4. mai 2023

Um rafmagn og umhverfisvottanir

Mikil umræða hefur verið um rafmagn og hvort það er umhverfisvænt eða ekki. Við höfum fengið mikið af fyrirspurnum varðandi þetta. Okkur hefur fundist þessi umræða vera ruglingsleg og að fjölmiðlar hafi ekki náð að skýra þetta nógu vel fyrir almenningi í landinu. Vegna þessarar umræðu um upprunavottanir á rafmagni og sölu upprunavottorða viljum við koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri og vonum að það skýri betur stöðu sölufyrirtækja rafmagns í þessum efnum.

Orka heimilanna er raforkusali og kaupir rafmagn af framleiðendum rafmagns og selur viðskiptavinum sínum. Það rafmagn sem Orka heimilanna kaupir og selur er framleitt með umhverfisvænum hætti hér á landi og það er ekki búið að aðskilja umhverfisvæna hluta orkunnar frá okkar rafmagni. Þannig koma allir okkar viðskiptavinir til með að halda áfram að fá umhverfisvæna græna orku og ekkert hefur breyst frá því sem áður var.

Sölufyrirtæki raforku hafa ekki val um hvort þau taki þátt í kerfi um upprunavottorð eða ekki. Sölufyrirtæki hafa hins vegar val um það hvernig þau spila úr þeim möguleikum sem kerfið býður upp á. Þeir möguleikar sem standa sölufyrirtækjum til boða eru þrír. Sölufyrirtæki getur keypt orku með upprunaábyrgðum og selt áfram til viðskiptavina. Viðskiptavinir fá þá umhverfisvottaða orku og allt er óbreytt frá því sem verið hefur hér á Íslandi. Möguleiki tvö er að sölufyrirtæki getur keypt rafmagn án upprunavottorða og greiða þá lægra verð fyrir orkuna. Möguleiki þrjú er að sölufyrirtæki kaupi raforku með umhverfisvottunum en selur sjálft vottorðin annað. Í tilfellum tvö og þrjú er staða raforkukaupenda á Íslandi breytt frá því sem áður var og fá viðskiptavinir þá óvottaða gráa orku. Viðskiptavinir raforkusölufyrirtækja sem fá óvottaða orku taka svo á móti óhreinni orku frá Evrópu. Þetta er vitaskuld allt bókhaldslegt en í þessu tilfelli eru það samt fyrirtæki og fjölskyldur í Evrópu sem eru að borga fyrir að fá upprunavottorðin og eru í góðri trú um að vera með hreina orku þrátt fyrir að orkan sem þau raunverulega nota sé framleidd með óumhverfisvænum hætti. Þannig telja þessi fyrirtæki og fjölskyldur að þau séu að haga sér á ábyrgan hátt og séu að gera góða hluti fyrir umhverfið. Til þess að umhverfisvæni hlutinn sé ekki seldur tvisvar taka fyrirtæki og heimili á Íslandi, sem kaupa óvottaða orku, á móti óhreina hluta orkunnar sem er mengun vegna framleiðslu rafmagns með jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Samkvæmt upplýsingasíðu Orkustofnunar hafa 4 af 8 sölufyrirtækjum raforku fengið vottun á að hafa selt sínum viðskiptavinum umhverfisvæna, vottaða orku árið 2021. Það eru svo fjögur fyrirtæki sem hafa ekki fengið þessa vottun og hafa þá selt viðskiptavinum sínum óumhverfisvæna orku frá upphafi árs 2021. Það þýðir að fyrirtæki og heimili sem kaupa af þeim orku hafa verið að fá óhreina orku. Spurning er hvort viðskiptavinir þessara sölufyrirtækja hafi fengið upplýsingar um uppruna orkunnar sem þeir hafa fengið. Það hvílir rík skilda á sölufyrirtækjum rafmagns að láta viðskiptavini sína vita um uppruna rafmagnsins sem þeir selja viðskiptavinum sínum. Orkustofnun hefur svo eftirlit með því að sölufyrirtæki uppfylli upplýsingaskildu sína gagnvart viðskiptavinum. Hvort sem viðskiptavinir hafi verið látnir vita eða ekki, þá teljum við að notendur sem fá óvottaða gráa orku hafi í fæstum tilfellum vitað af því. Við skoðun á heimasíðum sölufyrirtækjanna er ekki að sjá að viðskiptavinum sé umbunað fyrir að það sé búið að selja umhverfisvæna hlutann frá orkunni. Miðað við þau verð sem hægt er að fá fyrir umhverfisvottanir í dag þá ætti það að muna töluverðu í verði til notenda.

Neytendur eiga rétt á að fá upplýsingar um uppruna þeirrar raforku sem þeir kaupa frá sölufyrirtækjum. Við hvetjum neytendur til að vera upplýsta og leita eftir upplýsingum um uppruna þeirrar orku sem þeir eru að kaupa hjá sínum söluaðila.

Orka heimilanna ákvað að kaupa umhverfisvæna orku fyrir árið 2023 eins og önnur ár. Við töldum okkur ekki geta staðið á öðru. Geri sölufyrirtæki það ekki er um ákveðin vörusvik að ræða því ef raforka er seld án upprunavottorða þarf að kynna það mjög vel fyrir viðskiptavinum og viðskiptavinurinn þarf að ákveða sjálfur að kaupa óumhverfisvæna orku. Orka á Íslandi er umhverfisvæn og þess vegna er það skilda söluaðila að upplýsa viðskiptavini sína um uppruna orkunnar ef sú orka sem þeir selja er ekki umhverfisvæn.

Starfsfólk Orku heimilanna er ávallt tilbúið að ræða þessi mál við viðskiptavini og aðra og það er vilji okkar og hagur að neytendur skilji vel allar hliðar raforkumarkaðarins.

13. janúar 2023

Athugasemdir við leiðbeiningar Orkustofnunar

Orka heimilanna sendi í dag inn athugasemdir vegna breytinga á leiðbeiningum Orkustofnunar um notendaskipti og val á söluaðila raforku til þrautavara.

Athugasemdirnar má sjá í heild sinni hér.

26. janúar 2022

Umsögn Orku heimilanna vegna reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar

Orka heimilanna skilaði í dag inn umsögn vegna fyrirhugaðra breytinga á reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar. Markmið reglugerðarinnar er að efla neytendavernd á sviði raforkumála og stuðla að einföldun regluverks.

Umsögnina má sjá í heild sinni í samráðsgátt, sjá nánar hér.

16. ágúst 2021

Veikar eftirlitsstofnanir á raforkumarkaði

Um þessar mundir eru tvö ár frá því að Orka heimilanna kærði Orkusöluna til Samkeppniseftirlitsins vegna ólöglegra og óheiðarlegra vinnubragða. Í stuttu máli má segja að eftir mikil samskipti, fjölmörg bréf og símtöl þá hefur ekkert komið út úr þessu máli.
Á sama tíma eru um tvö og hálft ár liðin frá því að við kærðum allar dreifiveitur rafmagns og sex sölufyrirtæki til Samkeppniseftirlitsins og Orkustofnunar vegna ólöglegrar framkvæmdar á notendaskiptum. Sama er hér uppi á teningnum og lítið hefur gerst eftir fjölmörg bréf, fundi og símtöl. Ásetningur okkar í þessari vegferð er að rétt sé staðið að framkvæmd laga og reglugerða og að réttur raforkukaupanda til að velja sér söluaðila sé virtur. Í því fellst að allir raforkukaupendur fái að velja sér söluaðila og geri við hann samning um raforkukaup sín. Þannig er því ekki farið í dag.
Mikill tími hefur farið í að reka þessi mál og við erum orðin reynslunni ríkari eftir þessa vegferð. Það sem við tökum út úr þessu er hversu veikar eftirlitstofnanir eru hér á landi. Við teljum ljóst að Samkeppniseftirlitið og Orkustofnun valda ekki því hlutverki sínu að hafa eftirlit með raforkumarkaði. Báðir aðilar bera fyrir sig miklu álagi og skorti á mannskap. Staðreyndin er að ávinningur aðila af brotum á samkeppnislögum og öðrum lögum er það mikill að sektir eða dómar sem koma seint og síðar meir, ef þeir þá koma yfir höfuð, eru aldrei það íþyngjandi að ekki hafi borgað sig fyrir aðila á markaði að brjóta af sér. Þannig stuðlar álag á stofnanir og getuleysi þeirra til að bregðast við að því að afbrot borga sig og um leið fjölgar málum hjá umræddum stofnunum sem svo veldur auknu álagi. Þetta er hringrás sem nauðsynlegt er að stöðva því á endanum eru það neytendur sem greiða kostnaðinn.
Við hjá Orku heimilanna viljum hafa það sem réttast er og komum til með að fylgja þessum málum áfram eftir og fáum vonandi lausn á þessu fljótlega.

21. desember 2020

Jólaljós í nóvember

Við lifum skrítna tíma. Margir eru í einangrun eða sóttkví og flest eyðum við stórum hluta dagsins á heimilum okkar. Bent hefur verið á að til að lýsa upp daginn geti verið góð hugmynd að setja jólaljósin upp fyrr þetta árið. Við tökum undir með þeim sem finnst það góð hugmynd.

Margir hafa litla tilfinningu fyrir þeim rafmagnskostnaði sem fylgir því að setja upp jólaseríur. Áður fyrr voru heimili skreytt með 100 Vatta perum og kostnaður talsverður. Í dag eru seríur mun eyðslugrennri. Sem dæmi eyðir ný 100 ljósa sería sem fer á svalir 6,9 Vöttum. Ef hún logar allan sólarhringinn er rafmagnskostnaðurinn aðeins um 75 kr á mánuði.

Við hvetjum Íslendinga til að setja jólaljósin upp snemma í ár, lýsa upp skammdegið og gera vistina og ferðalagið innanhúss notalegra.

6. nóvember 2020

Umsögn vegna reglugerðar um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða

Orka heimilanna skilaði í dag inn umsögn vegna draga að reglugerð um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða. Þó við teljum að brýnt sé að setja reglur sem tryggja upplýsingaöryggi fyrirtækja sem eru mikilvæg fyrir Ísland þarf að tryggja að ekki verði settar óraunhæfar, kostnaðarsamar kröfur á söluaðila raforku sem leiða til hærra raforkuverðs fyrir notendur.

Umsögnina má sjá í heild sinni í samráðsgátt, sjá nánar hér.

18. júní 2020

Vinna við breytingar á söluaðilaskiptum hafin

Fljótlega eftir að Orka heimilanna hóf starfsemi varð okkur ljóst að á raforkumarkaði viðgengust viðamikil brot á raforku- og samkeppnislögum. Dreifiveiturnar skiptu markaðnum kerfisbundið milli sölufyrirtækja sem þær tengjast eignartengslum. Þannig lentu allir nýir viðskiptavinir á tilteknum dreifisvæðum sjálfkrafa í viðskiptum við það sölufyrirtæki sem tengist dreifiveitunni á svæðinu, svokallaðan „sjálfgefinn söluaðila“. Þetta veldur því jafnframt að ef viðskiptavinur Orku heimilanna flytur er hann tekinn úr viðskiptum við Orku heimilanna og settur hjá því sölufyrirtæki sem dreifiveitan á svæðinu er í tengslum við. Það er afar íþyngjandi fyrir okkur að missa reglulega viðskiptavini okkar úr viðskiptum og að sjálfsögðu óásættanlegt fyrir viðskiptavini okkar.

Vinna hefur nú hafist hjá dreifiveitunum gegnum samtök Samorku og Netorku við að breyta þessu fyrirkomulagi. Eftir þær breytingar verða notendur vonandi ekki færðir sjálfkrafa til svokallaðra sjálfgefinna söluaðila dreifiveitnanna eins og áður hefur tíðkast. Hins vegar halda Samorka og Netorka nú á lofti nýju hugtaki „samningsbundnir raforkukaupendur“ og felur það í sér að allir þeir sem í dag eru hjá tilteknum söluaðila verða álitnir með samning við það sölufyrirtæki. Þetta þýðir að þeir sem hafa verið settir í viðskipti við sölufyrirtæki með ólögmætum hætti séu samningsbundnir og koma þar af leiðandi ekki til með að fá möguleika á að velja sér söluaðila næst þegar þeir flytja eða hefja að greiða af nýjum mæli. Það er skýlaus réttur raforkunotenda að velja sér söluaðila en með þessu er verið að sniðganga þennan sjálfsagða rétt neytenda. Þessu höfnum við alfarið enda samræmist það ekki lögum og reglugerðum. Við höfum þegar sent Orkustofnun og öðrum málsaðilum athugasemdir vegna þessa.

8. maí 2020

Skilaboð til rekstraraðila á óvissutímum

Orka heimilanna hvetur rekstraraðila minni fyrirtækja sem greiða rafmagn eftir áætlun og hafa hætt eða dregið verulega úr starfsemi, til að lesa af rafmagnsmælum og skila inn álestri einu sinni í mánuði á meðan þetta ástand varir.
Það eru fordæmalausar tímar og margir atvinnurekendur horfa fram á rekstrarerfiðleika vegna versnandi efnahagsaðstæðna. Margir hafa dregið verulega úr starfsemi eða jafnvel lokað alveg. Flest minni fyrirtæki greiða rafmagn eftir áætlun. Við viljum hvetja eigendur fyrirtækja sem eru í þessari stöðu til þess að lesa af rafmagnsmælum núna og svo um hver mánaðarmót á meðan ástandið varir. Þannig kemur rafmagnsreikningur til með að lækka í hlutfalli við minni starfsemi. Álestrum er skilað inn til dreifiveitna á vefsíðum þeirra. Ef það er ekki gert fá fyrirtæki áfram reikninga eftir áætlun sem miðar við fulla starfsemi. Starfsmenn Orku heimilanna eru ávallt tilbúnir að svara spurningum sem upp geta komið.

Mbl 24. mars 2020

24. mars 2020

Bjóðum viðskiptavinum greiðslufrest

Viðskiptavinir sem verða fyrir tímabundnum tekjumissi vegna Covid-19 faraldursins geta nú frestað greiðslum.
Þeir sem verða fyrir tímabundnum tekjumissi geta nú frestað greiðslum vegna rafmagnsnotkunar sinnar. Þetta úrræði stendur þeim til boða sem misst hafa vinnuna í uppsögnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sem sjá fram á tekjumissi vegna þeirrar stöðu sem upp er komin. Við hvetjum viðskiptavini sem sjá fram á erfiðleika að hafa samband við okkur í tölvupósti eða á netspjalli á vefsíðu.

Mbl 18. mars 2020

18. mars 2020

Öll orka umhverfisvottuð

Í ljósi umræðunnar undanfarna daga viljum við árétta að öll orka sem Orka heimilanna selur til sinna viðskptavina er 100% endurnýjanleg og umhverfisvottuð.

Sértæka yfirlýsingu Orkustofnunar fyrir Orku heimilanna má nálgast hér.

26. febrúar 2020

Fleiri skipta um raforkusala

Fjöldi þeirra sem skipt hafa um raforkusala hefur aukist mikið síðustu tvö árin.

Frá því að Orka heimilanna hóf starfsemi í byrjun árs 2018 hefur mikil aukning verið í skiptum einstaklinga og fyrirtækja um raforkusala. Það er til marks um að rafmagnsnotendur eru í auknum mæli að átta sig á þeim möguleika að geta sparað með því að skipta um raforkusala. Netorka heldur utan um upplýsingar um söluaðilaskipti á Íslandi og hefur birt gögn þess efnis á vefsíðu sinni. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan var lítil breyting á söluaðilaskiptum milli áranna 2006 og 2017. Árið 2018 fara söluaðilaskipti hins vegar í fyrsta skipti yfir 2.000 á ári og árið 2019 voru söluaðilaskipti einstaklinga og fyrirtækja um 4.900.

 

Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga í söluaðilaskiptum

Greinilegt er að aukning á söluaðilaskiptum einstaklinga og fyrirtækja er mikil en þegar horft er til söluaðilaskipta einstaklinga er aukningin jafnvel enn meiri. Milli áranna 2006 og 2017 fóru söluaðilaskipti einstaklinga varla yfir 500 á ári. Árið 2018 skiptu hins vegar um 1.400 einstaklingar á Íslandi um raforkusala og árið 2019 voru söluaðilaskiptin um 2.800.

 

Fjöldi einstaklinga í söluaðilaskiptum

Markmið Orku heimilanna hefur frá upphafi verið að heimilin í landinu fái notið góðs verðs á rafmagni með aukinni samkeppni. Fyrirtæki hafa lengi getað fengið betri kjör í krafti stærðar sinnar en heimilin í landinu setið eftir. Lítill munur hefur verið á verðskrá sölufyrirtækja til heimilanna og sölufyrirtækin hafa getað sett hækkanir á innkaupsverði raforku beint út í verðlagið. Með aukinni samkeppni á síðustu árum hefur þetta verið að breytast og sölufyrirtækin hafa þurft að halda aftur af hækkunum sínum þegar innkaupsverð hefur hækkað. Á endanum er það undir neytendum komið að skipta um söluaðila og stuðla með því að eðlilegri samkeppni. Á þessum gögnum er greinilegt að landsmenn eru nú í auknum mæli að nýta sér möguleikann á að skipta um raforkusala og geta með því á einfaldan hátt lækkað rafmagnsreikninginn.

Gögn á vefsíðu Netorku: https://www.netorka.is/tolfraedi/

25. febrúar 2020

Umsögn Orku heimilanna vegna reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar

Orka heimilanna hefur skilað inn umsögn vegna fyrirhugaðra breytinga á reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar. Markmið reglugerðarinnar er að efla neytendavernd á sviði raforkumála og stuðla að einföldun regluverks.

Við teljum að margt í þessum drögum gangi þvert á tilgang þeirra. Í sumum tilfellum er dregið úr rétti neytenda og notendaskipti gerð flóknari í framkvæmd en þau eru í dag samkvæmt gildandi reglugerðum.

Umsögnina má sjá í heild sinni í samráðsgátt, sjá nánar hér.

10. október 2019

Raforkuöryggi almennings

Við hjá Orku heimilanna erum undrandi á ummælum Orkumálastjóra í grein sem birtist á ruv.is í dag undir yfirskriftinni, Vindorkan gæti varið almenning. Í greininni segir Orkumálastjóri meðal annars að „aukin beislun vindsins gæti orðið liður í að tryggja raforkuöryggi almennings vegna hugsanlegs orkuskorts á næstu árum“.

Hættan á orkuskorti hefur verið þekkt í langan tíma og höfum við margsinnis bent á hana. Á Íslandi eru 4 til 6 aðilar sem selja rafmagn til stóriðju. Þessir aðilar eru hver í sínu horni að vinna að samningum án þess að vita hver af öðrum. Þannig er hætta á að þeir ofselji rafmagn sem skapar hættu á orkuskorti. Ef orkusali selur rafmagn til stóriðju og sú sala veldur því að orkuskortur verður á landinu einhverjar klukkustundir er eðlilegt að sá söluaðili beri ábyrgð á því og skerði afhendingu til sinna stórnotenda en það lendi ekki á almenningi.

Raforkumarkaður fyrir almenna notendur er mjög stöðugur og notkun á rafmagni breytist lítið milli ára. Um er að ræða jafna aukningu og einfalt er fyrir Orkustofnun að spá fyrir um þá notkun fram í tímann og einfalt að gera áætlanir til að mæta þeirri notkun með góðum fyrirvara.

RÚV 17. júlí 2019

18. júlí 2019

Dreifiveiturnar brjóta lög með því að setja raforkunotendur í viðskipti við tengd sölufyrirtæki

Orkustofnun hefur staðfest kvörtun Orku heimilanna um að dreifiveitur brjóti lög með því að setja alla nýja notendur rafmagns sjálfgefið í sölu hjá því sölufyrirtæki sem dreifiveitan er í tengslum við.

Í niðurstöðu Orkustofnunar kemur fram að dreifiveiturnar hafi með háttsemi sinni brotið gegn ákvæðum reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1050/2004 og að þessi háttsemi gangi gegn skilyrðislausum rétti viðskiptavina til að eiga viðskipti við þá raforkusala sem þeir hafa kosið að kaupa raforku af.

Fram kom í kvörtun Orku heimilanna að dreifiveiturnar hafi frá upphafi setningar raforkulaga hunsað skýr ákvæði í lögunum um notendaskipti og sett alla nýja raforkunotendur sjálfgefið í viðskipti við það sölufyrirtæki sem dreifiveitan er í tengslum við. Þannig hafa þau viðhaldið markaðshlutdeild síns sölufyrirtækis og komið í veg fyrir eðlilega samkeppni. Með aðgerðum sínum hafa dreifiveiturnar skipt markaðnum á milli sölufyrirtækja með markvissum hætti og tryggt sínu sölufyrirtæki raforkuviðskipti upp á milljarða króna.

Dreifiveiturnar sjá um dreifingu rafmagns á sínum svæðum og hafa til þess starfsleyfi Orkustofnunar. Það er sérstaklega alvarlegt ef dreifiveitum er beitt til þess að beina viðskiptum til tiltekinna sölufyrirtækja. Orkustofnun hefur með úrskurði sínum fallist á að framangreind háttsemi sé í andstöðu við reglugerð um raforkuviðskipti.

Ákvarðanir Orkustofnunar vegna málsins má nálgast hér.

RÚV 26. mars 2019

Mbl 26. mars 2019

Fréttatíminn 28. mars 2019

26. mars 2019

Fyrsta árið í starfsemi Orku heimilanna

Um þessar mundir er að verða liðið ár frá því að Orka heimilanna fór í loftið og hóf að bjóða heimilum og fyrirtækjum rafmagn á betri kjörum en þau hafa haft. Þetta er búið að vera mjög lærdómsríkt og skemmtilegt ár og okkur hlakkar til framhaldsins.

Markmið okkar frá byrjun var og er að bjóða lægra verð á rafmagni fyrir heimili og smærri rekstraraðila um land allt. Með lágmarks yfirbyggingu er þetta mögulegt. Um árabil hafa fyrirtæki notið samkeppni á raforkumarkaði en lítil samkeppni hefur verið á rafmagni fyrir heimilin. Markmið okkar er að breyta þessu svo að heimilin hafi möguleika á að kaupa ódýrara rafmagn.

Það eru miklar breytingar á íslenskum raforkumarkaði í farvatninu. Í öllum þessum breytingum lítum við á okkur sem málsvara lítilla rafmagnsnotenda. Þ.e.a.s. heimila og lítilla fyrirtækja. Við munum hafa það að leiðarljósi allstaðar þar sem við fáum að gefa okkar álit.

17. mars 2019

Nú er hann kaldur að norðan

Nú er kalt og grípa þá margir til þess að bæta í hitann með rafmagns hitablásara. Eins og það er notalegt að geta skerpt á hitanum þá er það mjög mikilvægt að slökkva á hitablásaranum þegar hlýnar aftur. Ef ekki er slökkt á hitablásaranum þegar hitnar úti, lækka ofnar sjálfkrafa, hitastig helst það sama en dýrari rafhitun tekur yfir vatnshitun.

Loftur Már Sigurðsson sérfræðingur raforkuviðskipta hjá Orku heimilanna segir að þó lítið fari fyrir svona tæki þá notar það talsvert mikið rafmagn. Mjög algengt er að hitablásari noti 3000 vött, sem gera 3 kW á klukkustund. Þá kostar rekstur á hitablásara miðað við dreifingu í Reykjavík og sölu hjá Orku heimilanna:

 

Verð á kWst Veitur ohf 7,28 kr kWst

Orka heimilanna 7,30 kr kWst

Samtals rafmagn 14,58 kr kWst á höfuðborgarsvæðinu

 

Þannig kostar hitablásarinn á einni klukkustund: 3 * 14,58 = 43,74 kr

Einn dagur kostar þá: 24 * 43,74 = 1.050 kr

Vika kostar: 7 * 1050 = 7.348 kr

Mánuður kostar: 30 * 1050 = 31.492 kr

 

Á þessum útreikningum sést að svona tæki getur kostað talsvert og teljum við hjá Orku heimilanna nauðsynlegt að neytendur séu meðvitaðir um þann kostnað sem notkun tækisins skapar. Það er þekkt að einstaklingar hafa fengið bakreikning upp á allt að 300.000 kr eftir að hafa gleymt að slökkva á hitablásara segir Loftur.

8. febrúar 2019

Hægt að kaupa rafmagn hjá átta fyrirtækjum

Landsmenn geta keypt rafmagn frá átta mismunandi raforkusölum, óháð því hvar á landinu þeir búa. Sérfræðingur í orkusparnaði segir að raunveruleg samkeppni sé á smásölumarkaði með raforku.
 
Flestir nota rafmagn á hverjum einasta degi, oftast oft á dag. Færri vita eflaust að það er hægt að kaupa rafmagn af átta mismunandi orkusölum, algjörlega óháð því hvar á landinu maður býr. Á vefsíðunni Aurbjörgu má finna samanburð á raforkuverði fyrirtækjanna. Þar kemur fram að Orka heimilanna býður lægsta verðið, 5,89 krónur á kílóvattsstundina, en Orkusalan er með hæsta verðið, 6,44 krónur. Næstlægsta verðið er hjá Orkubúi Vestfjarða.
 

 

„Eftir því sem þetta kemur meira inn í umræðuna, mismunandi orkuverð, þá höfum við séð fólk koma til okkar í auknum mæli,“ segir Elías Jónatansson, orkubússtjóri hjá Orkubúi Vestfjarða.

Hvaðan kemur fólkið sem er að bætast í hópinn?

„Það er alls staðar að af landinu, en það er kannski helst af suðvesturhorninu af því að þar búa nú flestir,“ segir Elías.

Við ofangreindan lista má svo bæta Íslenskri orkumiðlun sem býður einnig upp á rafmagn til sölu, en á heimasíðu fyrirtækisins fást ekki upplýsingar um verð og fyrirtækið er hvorki með í verðsamanburði á heimasíðu Aurbjargar né á heimasíðu Orkuseturs.

En þótt munur sé á raforkuverði er ekki öll sagan sögð, því þá á eftir að dreifa rafmagninu. Og það fer eftir því hvar fólk býr, hvaða fyrirtæki sér um dreifinguna, og um þann þátt hefur fólk ekkert val. Þeir sem búa á Akureyri versla við Norðurorku og flestir þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu versla við Veitur, svo dæmi séu tekin.

Ef við miðum við 5.000 kílóvattsstunda notkun á ári fyrir heimili í Reykjavík kemur í ljós að með dreifingarkostnaði hljóðar rafmagnsreikningurinn upp á rúmar 92.500 krónur á ári, sé verslað við orkusalann með lægsta verðið, en tæpar 96.000 krónur sé verslað við þann með það hæsta. Þarna munar tæpum 3.500 krónum á ári.

 

 

„Það er virk samkeppni á þessum markaði,“ segir Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs. „Mörgum finnst það kannski skrítið vegna þess að verðmunurinn er mjög lítill. En í raun og veru er það eðlilegt miðað við eðli vörunnar. Þetta er bara kílóvattsstund og allir að bjóða nákvæmlega sömu vöru. Það er enginn munur, það er enginn með ofurkílówattsstund eða gæðakílóvattsstund. Þetta er bara kílóvattsstund. Og þegar þú ert með slíka hrávöru, þá er eðlilegt að allir elti lægsta verð og séu mjög þéttir nálægt hver öðrum.“

Sigurður segir að neytendur geti hins vegar haft áhrif á þessa samkeppni, og jafnvel lækkað verð, með því að vera duglegir við að skipta um raforkusala. Og það er einfalt að skipta.

„Þetta eru kannski 3.500 krónur á ári en á móti kemur að það er engin breyting, þetta er ókeypis sparnaður, þú ert ekki að minnka þjónustu við þig, og þú getur bara skipt um orkusala og fengið það lægsta og farið út að borða fyrir afganginn,“ segir Sigurður.

RÚV 28.janúar 2019

29. janúar 2019

Samningur við Bílahleðsluna

Orka heimilanna og Bílahleðslan skrifuðu í dag undir samstafsamning varðandi hleðslulausnir fyrir rafbíla. Orka heimilanna skaffar rafmagnið en Bílahleðslan sér um sölu og uppsetningu á hleðslustöðvum fyrir fjölbýlishús, fyrirtæki og heimili. Okkur hlakkar mikið til þessa samstarfs.

Nánar um Bílaheðsluna: http://bilahledslan.is 

20. desember 2018

Orka heimilanna kærir Orkusöluna fyrir samkeppnisbrot

Orka heimilanna hefur lagt inn formlegt erindi til Samkeppniseftirlitsins vegna meintra ólöglegra viðskiptahátta Orkusölunnar.

Frá því að Orka heimilanna hóf starfsemi höfum við tekið við viðskiptavinum um allt land en fljótlega kom í ljós að Orkusalan setti sig í samband við þá viðskiptavini sem voru að fara frá þeim og buðu þeim betri kjör gegn því að koma aftur til þeirra.

Viðskiptavinir Orku heimilanna koma frá öllum landshornum og frá öllum dreifisvæðum. Við urðum vör við það strax í upphafi að Orkusalan hringir í þá viðskiptavini sem þeir hafa misst og bjóða þeim frían mánuð og 10-15% afslátt komi þeir aftur í viðskipti við Orkusöluna. Með þessu grípur Orkusalan til sértækrar verðlækkunar sem stendur aðeins þeim fáu til boða sem eru að fara úr viðskiptum frá þeim. Orka heimilanna telur að þarna sé um að ræða skýrt brot á 11 gr. samkeppnislaga nr. 4/2005. Vegna þessa hefur Orka heimilanna sent inn erindi til Samkeppniseftirlitsins og vonast eftir að eftirlitið taki það til rannsóknar og hefji málsmeðferð.

Okkur finnst þetta mjög sérstakir viðskiptahættir hjá Orkusölunni, fyrir utan að vera ólöglegir, að verið sé að veðlauna þá sem fara úr viðskiptum en traustir viðskiptavinir Orkusölunnar sem hafa jafnvel verið hjá þeim í áratugi greiði fullt uppsett verð og standa ekki sömu kjör til boða.

Við gildistöku raforkulaga fékk Orkusalan alla viðskiptavini á dreifiveitusvæði Rarik í forgjöf. Eftir það hefur Rarik sett alla nýja viðskiptavini á sínu dreifisvæði í viðskipti við Orkusöluna án þess að hafa samband við viðskiptavini og benda þeim á aðra söluaðila eins og gerð er krafa um samkvæmt raforkulögum. Þetta hefur Orka heimilanna áður gert athugasemdir við og er von á niðurstöðu frá Orkustofnun fljótlega.

12. desember 2018

Orka heimilanna gerir athugasemdir við verklag dreifiveitna

Orka heimilanna hefur gert Orkustofnun og Samkeppniseftirlitinu grein fyrir verulegum misbrestum í verklagi dreifiveitna við móttöku nýrra viðskiptavina og farið þess á leit að þau hlutist til í málinu.

Dreifiveiturnar hafa frá upphafi setningar raforkulaga hunsað skýr ákvæði í lögunum um notendaskipti og sett alla nýja raforkunotendur sjálfgefið í viðskipti við það sölufyrirtæki sem dreifiveitan er í eignartengslum við. Þannig hafa þau viðhaldið markaðshlutdeild síns sölufyrirtækis og komið í veg fyrir eðlilega samkeppni. Með aðgerðum sínum hafa dreifiveiturnar skipt markaðnum á milli sinna sölufyrirtækja með markvissum hætti og tryggt sínum sölufyrirtækjum raforkuviðskipti upp á milljarða króna. Orka heimilanna hefur nú óskað eftir að eftirlitsstofnanir taki málið til skoðunar og tryggi að farið verði að lögum.

Við höfum nú fengið upplýsingar um að Orkustofnun sé að hefja skoðun á þessum málum og vonumst til að það leiði til þess að dreifiveiturnar fari að lögum og bjóði nýjum notendum að velja sér söluaðila. Það er okkur á móti skapi að þurfa að eyða tíma í að gera athugasemdir til eftirlitsstofnana og viljum við helst geta stundað heilbrigða samkeppni á heilbrigðum markaði.

Mbl 8. október 2018

Viðskiptablaðið 8. október 2018

8. október 2018

Harðnandi samkeppni

Í dag eru 200 dagar síðan Orka heimilanna fór í loftið og við hófum að taka við skráningum viðskiptavina. Við höfum einbeitt okkur að því að selja rafmagn fyrir heimili, sumarbústaði, sameignir, rafbíla og smærri fyrirtæki. Okkur er nú þakklæti efst í huga fyrir þær góðu viðtökur sem við höfum fengið og lítum björtum augum til framtíðar.

Markmið okkar er að koma á virkri samkeppni hér á landi og hefur það að mestu gengið vel. Samkeppnin kemur ekki aðeins fram í því að neytendum stendur nú til boða nýr valkostur með ódýrt rafmagn heldur hafa allir raforkunotendur hag af veru okkar á markaði því aðrir söluaðilar hækka síður verðskrár sínar. Þess má geta að ekkert raforkusölufyrirtæki hefur hækkað verðskrá síðan Orka heimilanna kom á markaðinn.

Okkar helsta verkefni frá því í júní, fyrir utan daglegan rekstur, hafa snúist um samskipti við eftirlitstofnanir vegna verklags aðila á raforkumarkaði. Það var ekki ætlun okkar í upphafi að fara í þá vegferð, heldur reyndum við að fá viðkomandi aðila til að fara að settum reglum. Eftir að hafa reynt í nokkra mánuði án árangurs sáum við að það var lítill vilji til breytinga.

Það er okkur á móti skapi að þurfa að eyða tíma í að gera athugasemdir til eftirlitstofnanna og viljum við helst geta stundað heilbrigða samkeppni á heilbrigðum markaði.

7. október 2018

Kostnaður við að hlaða rafbíl heima

Talsvert er rætt um rafmagnskostnað rafbíla um þessar mundir. Til þess að varpa ljósi á þetta höfum við tekið saman eftirfarandi töflu. Til einföldunar þá höfum við til viðmiðunar að rafbíll komist 5 km á kWst en flestir rafbílar komast lengra en það. Verðið á rafmagninu hjá okkur er 7,30 kr og svo bætist við gjald til dreifiveitunnar. Verð dreifiveitu er mismunandi eftir því hvar á landinu viðkomandi er en hér er miðað við verð Veitna á höfuðborgarsvæðinu sem er 7,28 kr. Kostnaðurinn er samtals 14,58 kr kWst og þá kostar að keyra rafmagnsbíl:

1 km 14,58 / 5 = 2,92 kr
100 km 100 * 2,92 = 292 kr
400 km 400 * 2,92 = 1.166 kr -Til Akureyrar
10.000 km 10.000 * 2,92 = 29.200 kr - Dæmigerð ársnotkun

Þetta eru vissulega frekar grófur útreikningur en ætti að gefa tilfinningu fyrir kostnaði við að hlaða rafmagnsbíl í heimahúsi.

13. september 2018

Orka heimilanna á Rafbíladögum í Smáralind

Rafbíladagar fóru fram í Smáralind helgina 25. - 26. ágúst. Rafbílasamband Íslands stóð fyrir dögunum sem voru nú haldnir í fyrsta skipti en stefnt er að því að gera Rafbíladaga að árlegum viðburði.

Að hlaða heima verður ávallt fyrsta val rafbílaeigenda og þá skiptir verðið á rafmagninu öllu máli. Orka heimilanna var að sjálfsögðu á staðnum.

31. águst 2018

Hleðsla rafbíla í heimahúsi ávallt fyrsta val

Hleðsla rafbíla í heimahúsi verður ávallt fyrsta val hjá rafbílaeigendum hvort sem er í sérbýli eða í fjölbýli.

Fljótlega eftir að rafbíll er kominn á heimilið kemur í ljós að þægilegast og ódýrast er að hlaða bílinn heima og vera með bílinn fullhlaðinn að morgni. Þá er bíllinn tilbúinn fyrir daginn og rafhlaðan endist í lang flestum tilfellum út daginn. Einu skiptin sem rafhlaðan dugar ekki er þegar farið er út á land eða snattið er óvenju mikið. Þá er sjálfsagt að nýta þær hraðhleslur sem komnar eru víðsvegar um landið.

Það að hlaða heima er einfalt fyrir þá sem búa í sérbýli en oft ekki eins einfalt fyrir þá sem búa í fjölbýli. Húsfélög ættu að sýna því skilning þegar íbúi kemur og óskar eftir lausn á hleðsluvanda sínum. Þó það sé ekki í verkahring húsfélaga í dag þá er þetta eitthvað sem mun koma.

Fyrst um sinn eru fáir bílar sem þurfa hleðslu. Við ráðleggjum rafbílaeigendum og húsfélögum að fara sér hægt í fjárfestingum og bíða eftir þörfinni. Einfaldasta og ódýrasta lausnin er að hlaða í innstungum sem eru þegar til staðar.  Það eina sem þarf að athuga er hvort innstunga og raflagnir þoli langtíma hleðslu.  Sé um að ræða hleðslu í sameign getur eigandi bílsins sett upp mæli við innstungu og mælt það rafmagn sem hann tekur út af sameignarrafmagni og gert það upp við húsfélagið. Slíkur útbúnaður kostar eiganda bílsins í kringum 25.000 kr. Einnig er það vörn fyrir heimæðina að rafbílar séu hlaðnir í 10 - 16 ampera tengi.

Þegar bílum fjölgar þarf svo að fara í varanlegri lausnir en það ætti ekki að vera fyrr en eftir 2 - 4 ár en á þeim tíma á eftir að verða mikil þróun og tæknin eftir að verð ódýrari.

22. águst 2018

Við upphaf starfsemi

Frá því í febrúar höfum við unnið hörðum höndum að því að fá tilskilin leyfi til að stunda raforkuviðskipti og gera samninga til að tryggja okkar viðskiptavinum orku. Í stuttu máli má segja að þessum áfanga hafi lokið 1. júní þegar fyrstu viðskiptavinirnir fóru að nota rafmagn frá okkur. Þetta tók vissulega lengri tíma en við hefðum viljað en við erum sáttir við áfangann.

Eins og fram hefur komið er markmið okkar að koma á virkri samkeppni á markaði fyrir rafmagn til heimila og smærri fyrirtækja. Um árabil, eða frá 2005 hefur verið virk samkeppni á fyrirtækjamarkaði en nú er komið að heimilunum að njóta samkeppninnar. Til þess að það geti gengið þurfa heimilin og smærri fyrirtæki að vera virkir kaupendur og versla þar sem rafmagnið er ódýrast. Við höfum fulla trú á neytendum og þess vegna erum við hér.

Ef þið hafið spurningar eða hugleiðingar, endilega verið í sambandi við okkur og við leggjum metnað okkar í að svara fljótt og vel.

5. júní 2018

Loftur Már til Orku heimilanna

Orka heimilanna hefur fengið Loft Má Sigurðsson til liðs við sig frá OR og Orku náttúrunnar þar sem hann seldi rafmagn.

Loftur Már Sigurðsson hefur verið ráðinn sérfræðingur rafmagnsmála hjá Orku heimilanna. Loftur starfaði áður hjá Orku náttúrunnar og Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem hann annaðist aðalega sölu á rafmagni og ráðgjöf til viðskiptavina.

Loftur hefur mikla reynslu af raforkumarkaðs- og raforkusölumálum og mun sjá um raforkusölu og samskipti við byrgja hjá Orku heimilanna.

Orka heimilanna er nýtt raforkusölufyrirtæki sem hóf starfsemi í mars og leggur sérstaka áherslu á að selja einstaklingum og smærri fyrirtækum rafmagn.

Markiðið með starfseminni er að stuðla að aukinni samkeppni á raforkumarkaði sem muni koma neytendum til góða.

Viðskiptablaðið 1. júní 2018

1. júní 2018

Hrista upp í verðsam­keppni á orku­markaði

Orka heim­il­anna, nýtt fyr­ir­tæki í sölu raf­magns á Íslandi, hóf starf­semi í mars og hef­ur það að mark­miði að stuðla að auk­inni verðsam­keppni í sölu til heim­ila og smærri fyr­ir­tækja.

„Tvö fyr­ir­tæki hafa að mestu skipt með sér markaðinum hingað til en með smærri yf­ir­bygg­ingu telj­um við okk­ur geta rekið starf­sem­ina með minni kostnaði og boðið lægra verð,“ seg­ir Bjarni Ingvar Jó­hanns­son, viðskipta­fræðing­ur og ann­ar stofn­enda fyr­ir­tæk­is­ins. Hinn stofn­and­inn er Loft­ur Már Sig­urðsson sem hef­ur unnið í orku­geir­an­um um ára­bil.

Með breyt­ing­um á lög­um árið 2005 var orku­fyr­ir­tækj­um á Íslandi gert að skilja að sölu­hluta starf­sem­inn­ar frá ann­arri starf­semi og um leið skapaðist tæki­færi fyr­ir nýja aðila á markaði. Bjarni seg­ir að frá þeim tíma hafi litl­ar breyt­ing­ar orðið á markaðnum og að sam­keppn­in hafi helst komið fram í því að stór­ir raf­orku­kaup­end­ur njóti betri kjara. Orku­sölu­fyr­ir­tæki hafi ekki lagt áherslu á heim­il­is­markaðinn og minni not­end­ur.

„Mark­miðið er að fá þann fjölda viðskipta­vina sem þarf til þess að rekst­ur­inn standi und­ir sér og þá stefn­um við að því að lækka verðið enn frek­ar,“ seg­ir Bjarni. „Þetta er ná­kvæm­lega sama ork­an og aðrir eru að selja en viðskipt­in fara bara í gegn­um okk­ur í staðinn. Það breyt­ir engu hjá not­and­an­um og hann verður ekki var við skipt­in. Það eina sem breyt­ist er að reikn­ing­ur­inn um mánaðar­mót­in lækk­ar.“

 

Stefna að sjálf­virkni­væðingu

Aðspurður seg­ir Bjarni að mun­ur á raf­orku­kostnaði fyr­ir heim­ili geti numið þúsund­um króna eða tug­um þúsund­a króna á ári en það ráðist af notk­un­inni. Til dæm­is muni meira fyr­ir þá sem eru með raf­hit­un. Þá seg­ir Bjarni að í framtíðinni muni fyr­ir­tækið bjóða upp á ýms­ar nýj­ung­ar sem gera litl­um not­end­um kleift að fá ork­una á sem hag­kvæm­asta verði.

„Planið er að kynna tækninýj­ung­ar sem gera ferlið sjálf­virk­ara, til dæm­is skrán­ingu, en í upp­hafi ætl­um við að halda start­kostnaðinum í lág­marki til þess að geta haldið verðinu lágu.“

Spurður um umstangið í kring­um það að stofna orku­sölu­fyr­ir­tæki seg­ir Bjarni að verkið hafi verið meira en lagt var upp með.

„Maður áttaði sig ekki á því í fyrstu hvað það væri í mörg horn að líta. Þetta er þannig geiri að það er mikið reglu­verk og stór­ar stofn­an­ir og allt tek­ur því tíma.“

Mbl 31. mars 2018

31. mars 2018

Í samkeppni við orkufyrirtækin

Orka heimilanna vill auka samkeppni við orkufyrirtækin með því að selja heimilum rafmagn á lægra verði.

Orka heimilanna er nýtt fyrirtæki í sölu rafmagns á Íslandi. Fyrirtækið hóf starfsemi í mars á þessu ári og markmiðið er að stuðla að aukinni samkeppni og bjóða lægra verð á rafmagni.

Í tilkynningu frá Orku heimilanna er bent á að með breytingum á lögum árið 2005 var orkufyrirtækjum á Íslandi gert að skilja að söluhluta starfseminnar frá annarri starfsemi og um leið skapaðist tækifæri fyrir nýja aðila á markaði.

Þar segir jafnframt að orkusölufyrirtækin hafa ekki lagt áherslu á heimilismarkaðinn og minni notendur. „Við vonum að með komu okkar á markað muni þetta breytast, enda mun Orka heimilanna bjóða upp á góð kjör og góða þjónustu. Í framtíðinni munum við bjóða upp á ýmsar nýjungar sem allar eru til þess fallnar að gera litlum notendum kleift að fá orkuna á sem hagkvæmasta verði,“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt upplýsingum á vef Creditinfo er Orka heimilanna í eigu Bjarna Ingvars Jóhannssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins og Lofts Más Sigurðssonar, stjórnarformanns fyrirtækisins.

Viðskiptablaðið 28. mars 2018

30. mars 2018

Opnað fyrir skráningar

Í dag tók Orka heimilanna formlega til starfa og opnað hefur verið fyrir skráninar á vefsíðu. Skráningin er einföld og fljótleg, það eina sem þú þarft að gera er að velja að koma í viðskipti, fylla inn í nokkra reiti, staðfesta tölvupóst og við sjáum um restina. Notendur verða ekki varir við fluttninginn og ekkert breytist að því undanskildu að mánaðarlegir reikningar lækka.

20. mars 2018

Orka heimilanna á samfélagsmiðlum

Orka heimilanna er nú á helstu samfélagsmiðlum. Tengist okkur hér fyrir neðan!

20. mars 2018

Orka heimilanna fær leyfi til að stunda raforkuviðskipti

Í dag fengum við leyfi til að stunda raforkuviðskipti og því ber að fagna. Orkustofnun gefur út leyfi til raforkuviðskipta samkvæmt raforkulögum.

21. febrúar 2018

Nýtt fyrirtæki á raforkumarkaði

Orka heimilanna er nýtt fyrirtæki í sölu rafmagns á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað í janúar 2018 og markmiðið er að stuðla að aukinni samkeppni og bjóða lægra verð á rafmagni fyrir heimili og smærri fyrirtæki um land allt.

Með breytingum á lögum árið 2005 var orkufyrirtækjum á Íslandi gert að skilja að söluhluta starfseminnar frá annarri starfsemi og um leið skapaðist tækifæri fyrir nýja aðila á markaði. Nokkur framþróun hefur orðið á markaðsaðstæðum síðan þá og nú er svo komið að lítið mál er fyrir rafmagnsnotendur að skipta milli sölufyrirtækja og stuðla þannig að virkri samkeppni. Við hvetjum áhugasama til að kynna sér málin nánar á vefsíðu Orku heimilanna. Opnað verður fyrir skráningar í viðskipti fljótlega.

23. janúar 2018