Viðskiptaskilmálar

  1. Gildissvið

Eftirfarandi eru viðskiptaskilmálar Orku heimilanna ehf. („Orka heimilanna“), kennitala 420218-2060, Mánagötu 11, 105 Reykjavík. Viðskiptaskilmálarnir skulu gilda  um öll viðskipta- og samningssambönd Orku heimilanna að meðtöldum raforkusamningum, nema um annað sé sérstaklega samið. Um sölu Orku heimilanna á raforku til viðskiptavina gilda raforkulög nr. 65/2003, reglugerð um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005 og reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019 með síðari breytingum. Viðskiptaskilmálar þessir skoðast meðal annars sem staðlaðir samningar um viðskipti með raforku milli sölufyrirtækis og almenns notanda skv. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1150/2019. Viðskiptavinir Orku heimilanna samþykkja að með gerð raforkusölusamnings, hvort sem hann er gerður skriflega, munnlega eða með rafrænum hætti, þá gilda um hann þessir viðskiptaskilmálar.

 

  1. Notkun

Viðskiptavinur samþykkir með gerð raforkusamnings við Orku heimilanna að veita Orku heimilanna umboð til að afla upplýsinga um raforkunotkun viðskiptavinar frá viðkomandi dreifiveitu. Umboðið nær meðal annars til upplýsinga um númer veitu og mælis, dreifisvæðis, heimilisfangs, dreifiveitutaxta, áætlaða ársnotkun, meðalnotkun, síðasta álestur, mæliaðferð, stöðu mælis, margföldunarstuðul og stafafjölda mælis. Ef um tímamældar veitur er að ræða þá eru tímagildin afhent allt að 24 mánuði aftur í tímann. Raforkunotkun viðskiptavinar við gerð raforkusamnings er notuð til ákvörðunar áætlunar um orkunotkun. Sé um að ræða nýjan viðskiptavin sem ekki hefur áður keypt orku er Orku heimilanna heimilt að áætla notkun með hliðsjón af sambærilegri notkun. Þegar viðskiptavinur gerir raforkusamning við Orku heimilanna og viðkomandi er í sölu hjá öðru sölufyrirtæki tekur það að lágmarki þrjár vikur að skipta um söluaðila.  Þetta er í samræmi við 9. Kafla Netmála Landsnets hf. sbr. B6 skilmálar um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn.  Sé viðskiptavinur að taka við nýrri veitu eftir flutning er um notendaskipti að ræða og taka þá viðskipti gildi við álestur mælis.

 

  1. Verð, greiðsluskilmálar og innheimta

Verð Orku heimilanna til heimila og fyrirtækja fer eftir gildandi verðskrá hverju sinni, nema um annað sé sérstaklega samið. Verðskráin er birt á heimasíðu Orku heimilanna en einnig kemur verð fram á reikningum frá Orku heimilanna. Orku heimilanna ber jafnframt að innheimta skatta og gjöld vegna raforkunotkunar samkvæmt löggjöf hverju sinni. Viðskiptavinur skal greiða mánaðargjald samkvæmt reikningi frá Orku heimilanna. Gjalddagi reiknings skal vera 5. hvers mánaðar eða fyrsti virki dagur þar á eftir. Orka heimilanna innheimtir seðilgjald að upphæð 113 kr með vsk. Sé reikningur frá Orku heimilanna ekki greiddur á gjalddaga reiknast af kröfunni dráttarvextir sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga til greiðsludags. Auk dráttarvaxta innheimtir Orka heimilanna allan innheimtukostnað samkvæmt gildandi reglum. Orku heimilanna er jafnframt heimilt að stöðva orkuafhendingu til viðskiptavinar með fulltingi dreifiveitu í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1150/2019, sbr. einkum 11 gr. ef viðskiptaskuldin lendir í vanskilum og almennar innheimtuaðgerðir seljanda bera ekki árangur þar til reikningur er að fullu greiddur ásamt áföllnum kostnaði. Heimild er í 43. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989, til aðfarar fyrir kröfunni án undangengins dóms eða sáttar.

 

  1. Uppsögn

Raforkusamningur Orku heimilanna og viðskiptavinar er ótímabundinn nema ef um annað er sérstaklega samið. Báðum aðilum er heimilt að segja upp raforkusamningnum og uppsagnarfrestur er 3 vikur. Uppsögn samnings tekur gildi næstu mánaðarmót eftir að 3 vikur eru liðnar.

 

  1. Riftun

Orku heimilanna er heimilt í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1050/2004, sbr. 11. gr. að rifta raforkusamningi við viðskiptavin greiði hann ekki í kjölfar innheimtuaðgerða.

 

  1. Ábyrgðarreglur

Orka heimilanna ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til óviðráðanlegra atvika (force majeure) en með því er almennt átt við aðstæður sem hvorugur aðili gat séð fyrir og sem hafa bein áhrif á efndir samnings.  Að öðru leiti fer um þetta efni samkvæmt almennum reglum kröfuréttar um efndir loforða og samninga. Samningsaðili sem ber fyrir sig óviðráðanlegu atviki samkvæmt þessari grein hefur sönnunarbyrði um að slíkt atvik hafi orðið. Skal aðili tilkynna gagnaðila þar um, með sannanlegum hætti og leggja fram nauðsynleg gögn um tilvist, efni og tímalengd slíkra atvika sé þess krafist af gagnaðila. Ef erfiðleikar eru við orkuöflun er Orku heimilanna heimilt, án þess að til bótaskyldu stofnist, að skerða afhendingu raforku. Orka heimilanna tilkynnir slíka skerðingu fyrirfram eins og unnt er kæmi til þessa.

 

  1. Synjun

Orka heimilanna áskilur sér rétt til að synja nýjum aðila, eða nýjum notkunarstað núverandi viðskiptavinar, um afhendingu á raforku, svo sem ef Orku heimilanna er illkleift að afhenda umbeðið magn af orku, vegna fyrri vanskila aðila, stöðu á vanskilaskrá, úrskurðar um gjaldþrot og því um líkt.

 

  1. Ágreiningsmál

Komi upp ágreiningur milli Orku heimilanna og viðskiptavinar þá skulu aðilar reyna að sætta ágreininginn en verði sáttum ekki við komið skulu ágreiningsmál rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

 

  1. Breytingar á viðskiptaskilmálum

Orka heimilanna áskilur sér einhliða rétt til að breyta viðskiptaskilmálum þessum. Breytingar á viðskiptaskilmálunum taka gildi frá birtingu þeirra á heimasíðu Orku heimilanna.

 

  1. Gildistaka

Viðskiptaskilmálar þessir taka gildi 1. september 2022.